Fótbolti

Aron Einar ekki í hópnum en Guðjohnsen-bræður með

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði lék síðast með landsliðinu í vináttulandsleikjunum í júní.
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði lék síðast með landsliðinu í vináttulandsleikjunum í júní. Getty/Laszlo Szirtesi

Þjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa tilkynnt hvaða leikmenn verða í landsliðshópnum sem mætir Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM karla í fótbolta í október.

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði er ekki í hópnum en hann missti af síðustu landsleikjum eftir að hafa smitast af kórónuveirunni. Síðan þá hefur hann hins vegar verið fastamaður í liði Al Arabi.

Fimm koma nýir inn

Bræðurnir Andri Lucas og Sveinn Aron Guðjohnsen eru báðir í hópnum að þessu sinni.  Alls koma fimm nýir inn í hópinn frá síðustu landsleikjum sem voru í byrjun september. Það eru auk Sveins Arons þeir Elías Rafn Ólafsson, Ari Leifsson, Stefán Teitur Þórðarson og Elías Már Ómarsson.

Markvörðurinn ungi Elías Rafn kemur inn í stað Hannesar Þórs Halldórssonar sem lagt hefur landsliðstreyjuna á hilluna.

Kári ekki í hópnum

Kári Árnason, sem ætlar að leggja skóna á hilluna í haust en á eftir að spila bikarleik eða bikarleiki með Víkingi áður, er ekki í hópnum.

Á meðal annarra sem ekki eru með núna eru Alfreð Finnbogason, Hörður Björgvin Magnússon og Sverrir Ingi Ingason, sem allir hafa glímt við meiðsli, auk Arnórs Ingva Traustasonar, Jóns Daða Böðvarssonar, Ragnars Sigurðssonar, Rúnars Más Sigurjónssonar, Arnórs Sigurðssonar og fleiri.

Ísland er í erfiðum málum í næstneðsta sæti J-riðils undankeppninnar með fjögur stig eftir sex umferðir af tíu. Þýskaland er efst með 15 stig, Armenía með 11, Rúmenía 10, Norður-Makedónía 9 og Liechtenstein neðst með 1 stig.

Ísland tapaði 2-0 á útivelli gegn Armeníu í mars en vann svo Liechtenstein 4-1 í sömu ferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×