Hraunelfurin frá gosstöðvunum í Cumbre Vieja hefur streymt í sjó fram í tvo daga og er ekkert lát á. Í frétt Guardian segir að ekki hafi enn orðið vart við gasmengun sem óttast var, enda hafa vindáttir verið hagstæðar og blásið reyk og ösku á haf út.
Á morgun gæti þó sigið á ógæfuhliðina þar sem veðurspár gera ráð fyrir því að vindur snúist og geti því lagst yfir nærliggjandi byggðir.
Gosið hefur nú staðið yfir í tæpar tvær vikur og hrakið um sex þúsund manns frá heimilum sínum og hraunið þekur nú um fimm ferkílómetra. Alls hafa 855 byggingar farið undir hraun, þar af 200 á síðasta sólarhring, en engan hefur sakað vegna hamfaranna fram til þessa.