Fótbolti

Ítalíumeistarar Inter eru líka meistarar í taprekstri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Inter maðurinn Lautaro Martinez kissir Ítalíumeistarabikarinn síðasta vor.
Inter maðurinn Lautaro Martinez kissir Ítalíumeistarabikarinn síðasta vor. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Þeir sem hneyksluðust á miklum taprekstri Juventus á síðasta fjárhagsári þurftu ekki að bíða lengi eftir að annað ítalska félag gerði enn betur eða verr eins og væri réttara að segja.

Ítalíumeistarar Internazionale birtu í gær ársreikning sinn fyrir fjárhagstímabilið 2020-21 og það er ekki falleg lesning.

Inter menn náðu nefnilega að setja nýtt met í taprekstri en tap félagsins á þessu eina fjárhagsári var upp á 245,6 milljónir evra eða 37,2 milljarða íslenskra króna.

Met Juventus frá því fyrr í mánuðinum var tap upp á 210 milljónir evra eða 31,8 milljarð íslenskra króna. Inter fór rúmlega fimm milljarða fram úr Juve mönnum.

Auðvitað hafði kórónuveirufaraldurinn gríðarleg áhrif á Ítalíu og aðalskýringin sem var gefin eru horfnar tekjur af heimaleikjum liðsins. Kínversku eigendurnir Suning hafa líka verið í miklum fjárhagskröggum heima fyrir.

Athygli vakti þegar Antonio Conte gekk út eftir að hafa gert Inter liðið að ítölskum meisturum í vor og þar spilaði slæm fjárhagsstaða stóra rullu. Félagið seldi líka tvo stjörnuleikmenn í sumar, Achraf Hakimi fór til PSG fyrir 70 milljónir evra og Romelu Lukaku fór til Chelsea fyrir 115 milljónir evra.

Inter mun þurfa að taka stór lán til að redda rekstrinum og það mun síðan örugglega hafa hamlandi áhrif á félagið í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×