Erlent

Veirulyf í pilluformi virðist draga mjög úr innlögnum og dauðsföllum af völdum Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ef lyfið fær markaðsleyfi yrði um að ræða þáttaskil í baráttunni gegn Covid-19.
Ef lyfið fær markaðsleyfi yrði um að ræða þáttaskil í baráttunni gegn Covid-19. AP/Merck

Veirulyfið molnupiravir virðist draga verulega úr sjúkrahúslinnlögnum og dauðsföllum meðal nýgreindra Covid-sjúklinga. Lyfjafyrirtækin á bak við lyfið hyggjast sækja um markaðsleyfi sem allra fyrst.

Ef lyfið kemst í almenna notkun væri um að ræða þáttaskil í baráttunni við Covid-19 en öll þau veirulyf sem sýnt hefur verið fram á að gagnist gegn Covid eru gefin í æð. Molnupiravir er hins vegar tekið í pilluformi.

Rannsókn lyfjafyrirtækjanna Ridgeback Biotherapeutics og Merck náði til 775 fullorðinna einstaklinga með væg eða miðlungs einkenni Covid-19. Allir áttu sameiginlegt að vera með undirliggjandi sjúkdóm.

Helmingur var settur á fimm daga kúr af molnupiravir en hinn fékk lyfleysu.

Í hópnum sem fékk lyfið voru 28 sjúklingar (7 prósent) lagðir inn á sjúkrahús en enginn dó. Í hópnum sem fékk lyfleysuna voru 53 (14 prósent) lagðir inn og átta létust.

Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir lagði sjálfstæður hópur sérfræðinga til að rannsókninni yrði hætt og hafa talsmenn Merck gefið út að þeir hyggist sækja um markaðsleyfi eins fljótt og auðið er.

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjunum tveimur tilkynntu 35 prósent þátttakenda í lyfjahópnum um aukaverkanir og 40 prósent þátttakenda í lyfleysuhópnum. 1,3 prósent þátttakenda sem fengu lyfið hættu notkun þess en 3,4 hættu notkun lyfleysunnar.

Molnupiravir var upphaflega þróað af lyfjaþróunarstofnun Emory University (DRIVE) og var þá kallað EIDD-2801. Það var afar umdeilt á sínum tíma, aðallega vegna þess eiginleika að geta valdið stökkbreytingum gena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×