„Menn eru búnir að vera í alla nótt að dæla,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar“ í samtali við Vísi.
Hann segir að fyrsta útkallið hafi komið klukkan ellefu og að menn hafi strax áttað sig á því að töluverðan mannskap þyrfti til að glíma við ástandið sem skapast hefur á Ólafsfirði vegna mikilla rigninga síðustu daga.
Útköllin hafi svo komið koll af kolli fram eftir nóttu.
„Það er búið að rigna látlaust í alla nótt, mikil ákefð í rigningunni. Það sem elstu menn hafa sagt mér er að þetta sé með því mesta sem hefur sést á svona skömmum tíma,“ segir Jóhann en nú er verið að skipta þreyttum mannskap út fyrir óþreytta.
Gular viðvaranir eru í gildi á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og á Ströndum vegna talsverðrar eða mikillar úrkomu. Gilda þær til miðnættis í nótt.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissutigi á Tröllaskaga vegna úrkomu á Norðurlandi eystra. Nokkrir sveitabæir í Þingeyjarsveit hafa verið rýmdir vegna úrkomu og skriðuhættu.