Körfubolti

Gæti orðið af milljónum Banda­ríkja­dala þar sem hann er ekki bólu­settur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kyrie Irving hefur ekki látið bólusetja sig. Það gæti kostað hann, í bókstaflegri merkingu.
Kyrie Irving hefur ekki látið bólusetja sig. Það gæti kostað hann, í bókstaflegri merkingu. Maddie Malhotra/Getty Images

Kyrie Irving gæti misst af fjölda leikja Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta þar sem hann er ekki bólusettur. Gæti það leitt til þess að hann verði af milljónum Bandaríkjadala.

NBA-deildin hefur í samráði við leikmannasamtök deildarinnar ákveðið að laun verði lækkuð fari svo að menn missi af leikjum sökum þess að þeir séu ekki bólusettir. Frá þessu er greint á vef ESPN.

Irving er leikmaður Brooklyn Nets sem er staðsett í New York, er hún ein þeirra borga sem hafa ákveðið að leikmenn í innanhús íþróttum þurfa að vera bólusettir til að mega spila.

Í San Francisco, heimaborg Golden State Warrior, þurfa leikmenn að vera fullbólusettir á meðan menn þurfa að hafa fengið allavega eina sprautu til að mega keppa í New York. 

Sem stendur mun þetta aðeins hafa áhrif á Kyrie sem er eini leikmaður liðanna tveggja sem hefur ekki látið bólusetja sig.

Talið er að hann muni verða af rúmlega 380 þúsund Bandaríkjadala – tæplega 50 milljónum íslenskra króna – á hvern leik sem hann missir af. Fari svo að hann verði ekki bólusettur og missir af öllum heimaleikjum Nets sem og útileikjum gegn Warriors mun hann verða af 15 milljónum Bandaríkjadala á leiktíðinni.

Samkvæmt Sean Marks, framkvæmdastjóra Nets, þá verður ekkert vesen þegar leiktíðin fer af stað þann 20. október. Marks reiknar með að Nets geti stillt upp sínu besta liði, bæði heima sem og að heiman.

Hvort það þýði að Marks reikni með að Irving láti bólusetja sig á næstu dögum eða deildin breyti reglum sínum varðandi bólusetningar leikmanna verður að koma í ljós.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×