Þetta segir Esther Hlíðar Jensen, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu. Hættustig almannaverna er í gildi vegna hættu á skriðuföllum á Seyðisfirði og í Kinn og Útkinn í Þingeyjarsveit. Á Tröllaskaga er óvissustig almannavarna í gildi vegna aukinnar skriðu- og grjóthrunshættu.
„Það hafa engar tilkynningar komið frá Útkinn í morgun og á Seyðisfirði hafa heldur ekki komið tilkynningar en við sjáum áfram hreyfingu á mælum. Hún er mjög lítil en hún er ennþá í gangi,“ segir Esther.
Hún segir að fljótlega verði fundað um hvort rýmingar verði áfram í gildi á báðum stöðum.
Mælar Veðurstofunnar á Seyðisfirði hafa sýnt að stór fleki í jaðri skriðusársins við Búðará sé kominn á hreyfingu. Sé um að ræða tvö til þrjú þúsund fermetra fleka sem gæti fallið í Búðará og sé í innri hluta farvegar stóru skriðunnar frá 2020. Lögregla ákvað í gær að rýma níu hús á Seyðisfirði vegna skriðuhættunnar, en húsin standa við Fossgötu og við Hafnargötu. Gert er ráð fyrir að rýming á Seyðisfirði vari fram yfir helgi í ljósi úrkomu sem spáð er á svæðinu.