„Þetta var kröftugur leikur hjá okkur, sérstaklega í vörninni. Við lokuðum vel á þær og vorum sterkar í návígum. Svo áttum við fína kafla og fengum tækifæri til að skora en það gekk ekki. Ég held að þetta hafi verið fín byrjun á þessari riðlakeppni og gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið. Það hlýtur að vera að liðið geti náð góðum árangri ef við spilum svona,“ sagði Vilhjálmur á blaðamannafundi eftir leik.
Hann segir að Blikar hafi farið inn í leikinn fullar sjálfstrausts og ætlað sér að ná í stig gegn frönsku meisturunum.
Einbeittur og hungraður hópur
„Ég var búinn að sjá þetta fyrir mér sem 1-1 leik og það stefndi í það á tímabili. Við höfðum mikla trú á verkefninu. Og það sem hefur skipt miklu máli fyrir okkur að undanförnu er að hópurinn hefur verið mjög einbeittur og hungraður. Það skein í gegn í dag og er komið til að vera í þessari keppni. Það verður erfitt að koma hingað og spila gegn Breiðabliki,“ sagði Vilhjálmur.
„Mér fannst liðið flott og búa til flotta kvöldstund fyrir tæplega 1500 áhorfendur. Við buðum upp á fínan leik gegn einu besta liði í heimi.“
Virkilega gaman að enda þetta svona
Vilhjálmur var heiðraður eftir leik, þakkað fyrir góð störf og áhorfendur á Kópavogsvelli klöppuðu honum lof í lófa.
„Þetta var æðislegt. Fullkomin kvöldstund hefði verið 1-1 en ég er mjög ánægður með frammistöðuna. Það er stutt á milli leikja og við gátum ekki eytt heilli viku í undirbúning. Við notuðum eiginlega bara eina æfingu til að undirbúa þessar varnarfærslur. Svo byggjum við alltaf á okkar leik. Það var virkilega gaman að enda þetta svona,“ sagði Vilhjálmur.