Þessa skoðun viðrar Veronika á Twitter-síðu sinni. Birgir greindi frá því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að hann væri genginn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, sem er þá með 17 þingmenn. Í Miðflokknum sitja eftir tveir þingmenn.
Leiðinlegt að skemma partyið en nýjustu vendingar gera verulega lítið úr prófkjarabaráttu D og vilja kjósenda.
— Veronika (@veronikamagnusd) October 9, 2021
Í samtali við Vísi segir Veronika að hún telji mikilvægt að niðurstöður prófkjara flokksins séu virtar.
„Mér finnst að við eigum að styðjast við prófkjörin þegar við veljum þingmenn sem hafa rödd innan þingflokksins. En ég ætla ekki að segja nákvæmlega hver afstaða félagsins er í þessu máli,“ segir Veronika og áréttar að um sé að ræða hennar persónulegu sýn á málið.
Veronika bendir á að í málum sem þessum komi inn þingmaður sem enginn kjósandi Sjálfstæðisflokksins hafi greitt atkvæði, hvorki í prófkjöri né í Alþingiskosningunum. Hún telur að flokkurinn ætti að stíga varlega til jarðar í slíkum málum.
„Fyrir mér þá er þetta aðallega prinsippmál og mér finnst að afstaða flokksmanna komi mjög skýrlega fram í prófkjörinu. Það setur tóninn varðandi það hvar hugur kjósenda liggur. Að fá einhvern fyrir hönd flokksins sem hefur verið kjörinn af kjósendum annars flokks, þar hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins ekkert um það að segja,“ segir Veronika.
„Við viljum beita okkur í prófkjörunum, það er það sem stendur og kjósendur flokksins fengu ekki tækifæri til að segja hug sinn í þessu máli.“