Þetta kemur fram í nýrri skýrslu breskrar þingnefndar. Þar segir að nálgun breskra stjórnvalda, sem naut stuðnings vísindamanna, hafi snúist um að reyna að ná hjarðónæmi með smitum meðal fólks, snemma í ferlinu. Þetta leiddi til að tafir urðu á að gripið var til lokunar samfélagsins, útgöngubanns og samkomutakmarkana.
Þingnefndin sagði bresku stjórninaþó einnig hafa náð góðum árangri á öðrum sviðum í baráttunni við faraldurinn, sér í lagi þegar kemur að bólusetningum. Allt frá fyrstu stigum – rannsóknum og þróun nýrra bóluefna – og fjöldabólusetningarnar sjálfar eru sagðar eitt „skilvirkasta framtak í sögu Bretlands“, að því er segir í frétt BBC.
Fyrstu tilfelli kórónuveirunnar komu upp í Bretlandi þann 31. janúar 2020 og var ekki tilkynnt um samkomutakmarkanir og útgöngubann fyrr en 23. mars sama ár.
Þingnefndin, sem er með þingmenn úr öllum flokkum innanborðs, skilaði í dag hinni um 150 síðna skýrslu sem lengi hefur verið beðið eftir.
Alls hafa 8,2 milljónir manna smitast af kórónuveirunni í Bretlandi frá upphafi faraldursins og eru um 140 þúsund dauðsföll rakin til Covid-19.