Fótbolti

Hannes ræðir ferilinn við BBC: Líklegra að vinna í lottóinu en að ná þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Halldórsson fagnar hér góðum úrslitum á HM í Rússlandi 2018 umkringdur ljósmyndurrum alls staðar að úr heiminum.
Hannes Halldórsson fagnar hér góðum úrslitum á HM í Rússlandi 2018 umkringdur ljósmyndurrum alls staðar að úr heiminum. Getty/Lukasz Laskowski

Hannes Þór Halldórsson er í flottu viðtali á heimasíðu breska ríkisútvarpsins þar sem hann fer yfir ferill sinn með Ciaran Varle.

Hannes fer þar yfir það af hverju hann hætti í fótbolta eftir tvítugt en kom svo aftur, vann sér sæti í landsliðinu 28 ára gamall, var hluti af liðinu sem vann England í sextán liða úrslitum EM og varði síðan víti frá Lionel Messi á HM.

„Þetta yrði slæmt handrit fyrir kvikmynd,“ sagði Hannes Þór Halldórsson og bætti við: „Fólk myndi líklega ekki þykja þetta trúverðugt,“ sagði Hannes.

Blaðamaður breska ríkisútvarpsins segir frá nýju kvikmyndinni Leynilögga, Cop Secret á ensku, sem hún kallar LGBTQ+ hasargrínmynd en þar kemur fram að myndin hafi fengið góða dóma og hafi nýverið verið sýnd á kvikmyndahátíðinni BFI Festival í London.

Gamli þjálfarinn í KR fékk hann til að byrja aftur

Hannes meiddist á öxl og hætti í fótboltanum til að einbeita sér að kvikmyndagerð. Það var hins vegar fyrrum þjálfari hans hjá KR sem hringdi í hann og fékk hann til að spila með Leikni í C-deildinni.

„Ég var þá að vinna sem kvikmyndagerðarmaður og ákvað að sjá hvorum megin ég kæmist lengra. Hvorugur boltinn hætti síðan að rúlla,“ sagði Hannes.

„Það er ótrúleg tilfinning að spila í stórum fótboltaleik en ég myndi segja að það væri svipuð tilfinning að sitja í bíósal og horfa á mynd sem þú hefur staðið að,“ sagði Hannes.

Hannes segist hafa verið að brenna út árið 2013. „Það var ekki eðlilegt að vera aðalmarkvörður landsliðsins en þurfa að vera vinna á fullu með því,“ sagði Hannes.

„Þegar ég náði loksins að verða atvinnumaður árið 2014 þá var ég ánægður að geta hvílt aðeins kvikmyndaferilinn. Ég spilaði erlendis í fimm til sex ár og ól börnin mín upp í fullt af löndum,“ sagði Hannes.

Aldrei verið eins gaman og þá

Hannes fer líka yfir hápunktana á ferli sínum.

„Það hefur aldrei verið eins gaman og á EM 2016. Þetta var eins og að vera á frábærum ferðamannastað með mörgum af þínum bestu vinum, í frábæru veðri og á fjögurra daga fresti spilaðir þú ótrúlegan leik,“ sagði Hannes.

„Ef þú hugsar um draumastund fyrir markvörð þá væri það að verja víti frá Messi. Þegar ég var fyrst valinn í landsliðið þá setti ég mér það markmið að ná að spila fimmtíu landsleiki. Þessi leikur á móti Argentínu var númer fimmtíu,“ sagði Hannes.

„Það er örugglega líklegra að vinna í lottóinu en að fara frá því að vera hættur í fótbolta til þess að verja víti frá besta leikmanni heims á HM,“ sagði Hannes. Það má lesa allt viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×