Erlent

„Ég vil horfa á þennan hnött og meta fegurð hans“

Samúel Karl Ólason skrifar
Áhöfn SN-19 sem ætlar út í geim á morgun.
Áhöfn SN-19 sem ætlar út í geim á morgun. Blue Origin

Leikarinn William Shatner fer út í geim á morgun. Það mun hann gera með þremur öðrum geimförum um borð í geimfarinu NS-18. Hinum níræða Shatner og geimförunum verður svo skotið á loft af starfsmönnum Blue Origins.

Auk Shatnes eru þau Audry Powers frá Blue Origin, Glen de Vries og Chris Boshuizen í áhöfn NS-18.

Shatner er hvað þekktastur fyrir leika James Kirk í Star Trek.

Sjá einnig: Kafteinn Kirk á leiðinni út í geim

Blue Origin birti í dag myndband þar sem Shatner talaði um hve spenntur hann væri fyrir geimskotinu.

Þar segir Shatner að allt ferlið hafi þegar breytt lífi hans og það sé frábært að fá að taka þátt í upphafi væntanlegrar fjölgunar geimferða. Þá segist Shatner vilja sjá fegurð jarðarinnar úr geimnum.

Blue Origin er í eigu Jeff Bezos en hann fór sjálfur út í geim með geimfari fyrirtækisins fyrr árinu. Blue Origin ætlar meðal annars að selja auðugum ferðamönnum ferðir út í geim.

Geimferðirnar sjálfar taka um það bil tíu mínútur en geimförum Blue Origin er skotið í rúmlega hundrað kílómetra hæð, sem markar Kármán-línuna svokölluðu sem táknar enda gufuhvolfsins og byrjun geimsins.

Sjá einnig: Geimskot Bezos og félaga heppnaðist fullkomlega

Alþjóðlega geimstöðin er í um fjögur hundruð kílómetra hæð. SpacX skaut í síðasta mánuði fjórum ferðalöngum í rúmlega fimm hundruð kílómetra hæð og voru þau á braut um jörðu í þrjá daga.

Sjá einnig: Vildi sýna að venjulegt fólk gæti farið út í geim

Áætlað er að skjóta geimfarinu á loft um klukkan hálf níu að morgni að staðartíma í Texas. Það samsvarar um klukkan hálft tvö hér á landi.

Hægt verður að fylgjast með geimskotinu á Youtube og hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×