Innlent

Óskar aftur eftir upp­lýsingum vegna á­bendinga um að börn séu lokuð inn í sér­stökum rýmum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skúli Magnússon er umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon er umboðsmaður Alþingis. Vísir/Vilhelm.

Umboðsmaður Alþingis hefur á nýjan leik óskað eftir upplýsingum frá nokkrum sveitarfélögum um aðstæður barna sem eru aðskiliðin frá samnemendum sínum í grunnskólum. Ábendingar hafi borist frá foreldrum um að börn hafi verið lokuð inni í sérstökum rýmum, jafnvel einsömul.

Þetta kemur fram á vef umboðsmanns þar sem segir að stofnunin hafi óskað eftir upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og skólaskrifstofum Reykjavíkurborgar, Akureyrar,Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar, um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum grunnskóla.

Vísar umboðsmaður í að á síðasta ári hafi hann óskað eftir sambærilegum upplýsingum en ákveðið að aðhafast ekki frekar eftir að svör bárust.

„Síðan hafa honum hins vegar borist ábendingar frá foreldrum um að börn hafi verið lokuð inni í sérstökum rýmum, jafnvel einsömul. Það ásamt nýlegri opinberri umræðu um að dæmi séu um að börn séu lokuð inni í ákveðnum skólum og verklag í tengslum við hana er kveikjan að því að hreyfa við málinu á ný,“ segir á vef umboðsmanns.

Vill hann vita hvort að ráðuneytinu eða sveitarfélögunum hafi borist ábendingar, kvartanir eða kærur vegna slíkra mála frá síðasta svari. Hvort vart hafi orðið við þessa framkvæmd í skólum og hvort vitneskja sé um að í einhverjum grunnskólum sé fyrir hendi almennt skráð verklag um hana.

Vill umboðsmaður fá svör fyrir 1. nóvember auk þess sem að hann tekur fram að berist upplýsingar sem gefi tilefni til, kunni að verða farið í vettvangsheimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×