Með Shatner voru þau Audry Powers frá Blue Origin, Glen de Vries og Chris Boshuizen um borð í New Shepard geimfari Blue Origin.
Ferðin tók rúmar tíu mínútur frá upphafi til enda og fóru þau í rúmlega hundrað kílómetra hæð. Þar svifu þau um stund áður en geimskipið byrjaði að falla aftur til jarðar. Hundrað kílómetra hæð markar Kármán-línuna svokölluðu sem táknar enda gufuhvolfsins og byrjun geimsins.
Á leiðinni aftur til jarðar mátti heyra Shatner segja: „Þetta var ólíkt því sem þið lýstuð. Ég hef aldrei upplifað annað eins.“
Þetta var í fjórða sinn sem þessari tilteknu eldflaug var skotið út í geim.
Hér má sjá það helsta frá geimskotinu sjálfu.
Blue Origin er í eigu Jeff Bezos en hann fór sjálfur út í geim með geimfari fyrirtækisins fyrr árinu. Blue Origin ætlar meðal annars að selja auðugum ferðamönnum ferðir út í geim.
Bezos tók á móti geimförunum eftir lendingu. Hann ræddi við Shatner og augljóst var að geimferðin hafi reynst leikaranum tilfinningaþrungin og virtist hann fara að gráta þegar hann lýsti upplifuninni við Bezos.