Heimir hefur verið orðaður við Stjörnuna að undanförnu. Eyjamaðurinn vildi ekki tjá sig um orðróminn í samtali við Vísi en sagðist hafa átt í viðræðum við fjölmörg félög, bæði hér á landi og erlendis.
Möguleikinn á að Heimir taki við Stjörnunni virðist hins vegar vera úr sögunni ef marka má færslu Hjörvars á Twitter í dag.
„Heimir Hallgrímsson verður ekki þjálfari Stjörnunnar. Mjög metnaðarfull tilraun Garðbæinga og munaði litlu segja menn á Garðaflötinni. Núna eru Stjörnumenn í alvöru veseni með að finna þjálfara,“ skrifaði Hjörvar.
Heimir Hallgrímsson verður ekki þjálfari Stjörnunnar. Mjög metnaðarfull tilraun Garðbæinga og munaði litlu segja menn á Garðaflötinni. Núna eru Stjörnumenn í alvöru veseni með að finna þjálfara.
— Hjörvar Hafliðason (@hjorvarhaflida) October 14, 2021
Heimir hefur verið án starfs síðan hann hætti hjá Al Arabi í Katar síðasta vor. Hann stýrði áður íslenska karlalandsliðinu í sjö ár, fyrst sem aðstoðarþjálfari í tvö ár, eftir að hafa þjálfað karla- og kvennalið ÍBV heima í Vestmannaeyjum.
Stjarnan hóf síðasta tímabil undir stjórn Rúnars Páls Sigmundssonar en hann hætti óvænt eftir fyrsta leik liðsins í Pepsi Max-deildinni. Þorvaldur Örlygsson færðist þá úr stöðu aðstoðarþjálfara og stýrði Stjörnunni út leiktíðina en hætti svo og gerðist rekstarstjóri knattspyrnudeildar félagsins.
Stjarnan endaði í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili.