Verðmæti verksins var talið vera á bilinu 700 milljónir upp í allt að milljarð íslenskra króna fyrir uppboðið. Salan fór því fram úr björtustu vonum og seldist verkið á þrefalt meiri pening en ríkulegasta verðmat hafði gert ráð fyrir. AP News segir frá.
Listaverkið hlaut heimsathygli fyrir um þremur árum þegar það var fyrst selt á uppboði. Þegar listaverkið hafði verið selt á uppboðinu fór tætari falinn í ramma verksins skyndilega í gang. Myndin rann niður í rammanum í gegnum þartilgerðan tætara og stór partur verksins tættist í strimla.
Banksy tjáði sig um málið í kjölfar gjörningsins og sagði löngunina til að eyðileggja einnig vera listræna löngun. Verkið seldist ótætt á tæpar 150 milljónir króna á þeim tíma og hefur verðmæti listaverksins því nærri tuttugufaldast á þremur árum.

Götulistamaðurinn er heimsfrægur en hefur aldrei komið fram undir nafni. Hann vakti upphaflega athygli með götulistaverkum sínum í Bristol í Bretlandi. Banksy hefur meðal annars notað list sína til að vekja athygli á pólitískum málefnum líðandi stundar.