Fótbolti

Messi: Eins og dómarinn geri þetta vísvitandi

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi var ekki hrifinn af störfum dómarans í leiknum við Perú í nótt.
Lionel Messi var ekki hrifinn af störfum dómarans í leiknum við Perú í nótt. Getty/Daniel Jayo

Brasilíumenn geta farið að bóka flug á HM í Katar eftir enn einn sigurinn í undankeppninni í Suður-Ameríku í nótt. Lionel Messi skaut á brasilískan dómara eftir 1-0 sigur Argentínu á Perú.

Messi birti mynd af sér á Instagram eftir sigurinn og var greinilega ósáttur við störf dómarans Wilton Sampaio. Sampaio dæmdi meðal annars vítaspyrnu á Argentínu, sem Perú tókst ekki að nýta, og sleppti því að dæma víti þegar stigið var á Lautaro Martínez innan teigs í fyrri hálfleik.

Martínez skoraði sigurmarkið á 43. mínútu en það var Yoshimar Yotun, leikmaður Malmö, sem klúðraði vítaspyrnu Perú með skoti í slána á 65. mínútu.

„Erfiður leikur, erfitt að spila. Mikill vindur, þeir lágu aftarlega og gáfu okkur lítið pláss. Dómarinn gerir þetta alltaf þegar hann dæmir hjá okkur, eins og hann geri þetta vísvitandi. En allt í lagi, 3 mikilvæg stig og við erum nær markmiði okkar,“ skrifaði Messi á Instagram.

Brasilía og Argentína eru í tveimur efstu sætunum í Suður-Ameríkuriðlinum en fjögur efstu liðin komast á HM og liðið í 5. sæti fer í umspil. Brasilía er taplaus, með 31 stig, og Argentína er með 25 eftir ellefu leiki, átta stigum á undan næsta liði sem er Ekvador.

Raphinha, leikmaður Leeds, skoraði tvö marka Brasilíu í 4-1 sigrinum gegn Úrúgvæ, eftir að Neymar hafði komið liðinu yfir. Luis Suárez náði að minnka muninn fyrir Úrúgvæ á 77. mínútu en Gabriel Barbosa innsiglaði svo sigur heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×