Menning

Fé­lag má­landi kvenna heldur sína fyrstu sýningu

Árni Sæberg skrifar
Hópurinn varð til í kjölfar óformlegrar könnunar sem Kristín Morthens gerði árið 2019.
Hópurinn varð til í kjölfar óformlegrar könnunar sem Kristín Morthens gerði árið 2019. Snorri Bros

Í dag hefst listasýning sextán kvenna í Listasal Mosfellsbæjar sem gengur undir heitinu Endurheimt(a)/Reclaim(ing). Þetta er fyrsta sýning listahópsins Félag málandi kvenna sem er óformlegt stuðningsnet við kvenkyns málara.

Hópurinn varð til í kjölfar óformlegrar könnunar sem Kristín Morthens gerði árið 2019 um hlutfall kvenna sem sýnenda í galleríum Reykjavíkur. Hún var þá tiltölulega nýkomin til Reykjavíkur frá Torontó þar sem margir stærstu málaranna eru konur.



„Hlutfallið hér var alveg fáránlegt. Þegar ég leit betur yfir landslagið tók ég eftir hvað miklu munar á sölum á málverkum eftir karla og konur, það var eins og hugmyndin um karlkyns málara snillinginn sæti enn föst í hugum borgarbúa. Að „málarinn“ líti út eins og Kjarval eða einhver af okkar gömlu „meisturum“. Hæsta hlutfall listamanna í galleríi sem voru konur var 36 prósent en flest galleríin voru að slefa í 22 til 26 prósent. Ég hugsaði að þetta gæti ekki verið tilviljun að körlum finnist bara miklu skemmtilegra að mála en konum og séu betri í því. En ég þurfti ekki að leita lengri en til kynslóðar foreldra minna þar sem það tíðkaðist að segja „þú málar eins og kelling“ ef einhver þótti ekki góður málari,“ segir Kristín Morthens í fréttatilkynningu.

Kristín segir margar kvenna í kringum hana hafa haft sömu tilfinningu og úr varð listahópurinn Félag málandi kvenna. Eitt af markmiðum hópsins er að finna styrk í samstöðunni og auka sýnileika málandi kvenna af sinni kynslóð. 

Hópurinn virkar einnig sem tengslanet þar sem listakonurnar geta rætt sína myndlist við jafningja, skipst á sögum og hugmyndum og hjálpast að með ýmis hagnýt atriði. Félag málandi kvenna vill að konur, sem vinna með þann hornstein myndlistar sem málverkið er, fái meira pláss í myndlistarlífinu hérlendis og aukna athygli virtra sölugallería.

Félag málandi kvenna er ört stækkandi hópur en sextán listakonur verða með verk á sýningunni í Listasal Mosfellsbæjar. Þær eru Aðalheiður Daly Þórhallsdóttir, Andrea Aldan Hauksdóttir, Ásgerður Arnardóttir, Brynhildur Þórðardóttir, Dýrfinna Benita Basalan-Garðarsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Íris María Leifsdóttir, Kristín Morthens, Mellí-Melkorka Þorkelsdóttir, Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Sif Stefánsdóttir, Saga Sig, Sara Björk Hauksdóttir, Sunneva Ása Weisshappel og Vera Hilmars.

Kristín Morthens hvetur alla til að mæta á sýninguna: „Og styðja þannig, styrkja og taka þátt í því að breyta einsleitri flóru íslenskra málara.“

Sýningin stendur til 12. nóvember og er opin frá klukkan 12 til 18 virka daga og klukkan 12 til 16 á laugardögum. Aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.