Vopnaðir einstaklingar ruddust um borð í rútu þegar trúboðarnir höfðu nýlega lokið við heimsókn á munaðarleysingjahæli þar í landi. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ekki gefið út formlega yfirlýsingu en segja öryggi bandarískra ríkisborgara skipta öllu máli.
Glæpahópar hafa lengi stjórnað fátækustu hverfunum í höfuðborg Haítí. Nýverið hafa hóparnir stækkað yfirráðasvæði sitt og teygja sig nú í fleiri hverfi höfuðborgarinnar. Síðan forseti Haítí var skotinn til bana á heimili sínu í júlí hefur ástandið versnað, að því er fram kemur í frétt BBC.
Samkvæmt frétt The New York Times hafa íbúar Haítí beðið yfirvöld í Bandaríkjunum um að senda hermenn til landsins en stjórn Bidens Bandaríkjaforseta virðist treg til. Yfir sex hundruð mannrán hafa verið skráð á Haítí á þessu ári en landið er með eina hæstu tíðni mannrána í heiminum. Glæpahóparnir ræna fólki og krefjast lausnargjalds eða neyða fólk til að selja eigur sínar.