Heimakonur settu tóninn snemma og skoruðu 11 stig gegn aðeins tveim stigum gestanna í upphafi leiks. Gestirnir náðu að hlda aðeins í Haukakonur út fyrsta leikhluta, en að honum loknum var staðan 26-15.
Haukakonur gjörsamlega gengu frá gestunum í öðrum leikhluta og skoruðu 25 stig gegn einu stigi Skallagríms og staðan var því 51-16 þegar flautað var til hálfleiks.
Ekki batnaði staðan fyrir gestina í þriðja leikhluta, en þrátt fyrir að ná að skora sjö sinnum fleiri stig en í öðrum leikhluta stækkaði bilið um 13 stig og staðan var 71-23 þegar komið var að lokaleikhlutanum.
Haukakonur héldu áfram að þjarma að gestunum í lokaleikhlutanum og unnu að lokum gríðarlega öruggan 64 stiga sigur, 93-29.