Til stendur að byggja upp reitinn sem telur nú Ármúla 31 og aðliggjandi fasteignareiti í tengslum við nýtt deiliskipulag sem þegar hefur verið auglýst og er nú í úrvinnslu hjá Rekjavíkurborg. Kaupin ná ekki til gamla Rafmagnsveituhússins að Suðurlandsbraut 34.

Gert er ráð fyrir að undirritun kaupsamnings og afhending eigi sér stað á fyrsta árfjórðungi næsta árs að því er fram kemur í tilkynningu. Kaupverðið verður greitt með peningum við undirritun samningsins en með samkomulaginu sem nú er í gildi hafa Reitir skuldbundið sig til samstarfs um hönnun, útfærslu og kaupa á um 1.520 fermetra atvinnuhúsnæði, sem stendur til að byggja á lóðinni.
Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að lágreist hús sem standi við Ármúla víki fyrir þriggja til átta hæða nýbyggingum í borgarmiðuðu skipulagi en gamla Rafmagnsveituhúsið fái þó virðingarsess á lóðinni.
„Orkureiturinn er miðsvæðis í borginni, á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar og nær einnig upp að Ármúla. Reiturinn liggur við fyrirhugaða Borgarlínu, gegnt útivistarsvæði í Laugardal og í nálægð við fjölbreytta verslun og þjónustu, m.a. í Skeifunni,“ segir í tilkynningunni.

Salan mun ekki hafa áhrif á rekstrarafkomu Reita árið 2021 þar sem afhending hins selda mun ekki eiga sér stað fyrr en í ársbyrjun 2022. Með sölunni hækkar rekstrarhagnaður félagsins um 70 milljónir króna á ársgrundvelli. Söluhagnaður vegna viðskiptanna er áætlaður um 1.300 milljónir króna.
