Þetta segir í skriflegu svari talskonu lögreglunnar í Manchester við fyrirspurn fréttastofu.
Gylfi Þór var handtekinn þann 16. júlí síðastliðinn grunaður um kynferðisofbeldi gegn barni. Gylfi var tekinn til skýrslutöku við handtökuna og húsleit gerð heima hjá honum en var síðan sleppt lausum gegn tryggingu og hefur það fyrirkomulag verið í gildi síðan.
Gylfi hefur undanfarin misseri spilað með enska knattspyrnuliðinu Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Gylfi var ekki á lista liðsins yfir þá leikmenn sem liðið hefur mátt tefla fram í leikjum frá 1. september og má því ekki spila fyrir liðið fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar næstkomandi. Það er þó ólíklegt að hann byrji að spila aftur með liðinu þá en Everton hefur gefið það út að hann muni ekki spila með liðinu fyrr en rannsókn lögreglu er lokið.
Samningur Everton og Gylfa rennur út næsta sumar en hann var keyptur til félagsins frá Swansea fyrir 45 milljónir punda árið 2017.
Þá hefur Gylfi ekki leikið með landsliði Íslands síðan í nóvember í fyrra.
Fréttin hefur verið uppfærð.