Enski boltinn

Solskjær segir Ronaldo vera að gera allt sem hann geti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo spilaði illa í síðasta leik en það er von á einhverju frá honum í kvöld.
Cristiano Ronaldo spilaði illa í síðasta leik en það er von á einhverju frá honum í kvöld. EPA-EFE/Peter Powell

Ef það eru einhverjir sem hafa fengið á sig meiri gagnrýni en aðrir eftir slæmt gengi Manchester United að undanförnu þá eru það knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær og súperstjarnan Cristiano Ronaldo.

Ronaldo hefur ekki skorað í þremur deildarleikjum í röð og Manchester United hefur aðeins náði í eitt stig samanlagt út úr þeim.

Ronaldo fann sig engan veginn í síðasta leik á móti Leicester City sem tapaðist 4-2 um síðustu helgi. Eftir hann voru sumir að gagnrýna Ronaldo fyrir að vera ekki nógu duglegan í pressunni.

Ole Gunnar Solskjær ræddi þetta á blaðamannafund fyrir Meistaradeildarleikinn á móti Atlanta í kvöld. Hann kom sínum manni til varnar.

„Við erum með ellefu leikmenn inn á vellinum og hver þeirra hefur mismunandi hlutverk og ábyrgð á ólíkum hlutum. Við setjum lið út á völlinn sem við trúum að muni færa okkur sigur í þeim leik,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Við unnum ekki á móti Leicester og þá kemur alltaf gagnrýni. Cristiano er algjör toppleikmaður og við vitum hvað hann getur gert fyrir okkur. Hann er að gera allt sem hann getur til að hjálpa liðinu,“ sagði Solskjær.

Sky Sports tók líka saman tölfræði um hlaup og spretti Ronaldo og þar kemur í ljós að hann er með svipaðar tölur og bestu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í hans stöðu.

Ronaldo hleypur 9,3 kílómetra á hverjar níutíu mínútur og tekur 15,1 spretti á sama tíma.

Ronaldo er að hlaupa næstum því jafnmikið og Mo Salah hjá Liverpool og meira en Romelu Lukaku hjá Chelsea. Hann er líka að taka fleiri spretti en Harry Kane hjá Tottenham og Lukaku. Það má sjá ummæli Solskjær og þessa tölfræði hér fyrir neðan.

Leikur Manchester United og Atalanta verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 í kvöld og hefst útsendingin klukkan 18.50. Á undan verður upphitun fyrir Meistaradeildarkvöldið frá klukkan 18.15 og eftir leikinn verða Meistaradeildarmörkin á dagskrá á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×