Viðskipti innlent

Sif tekur við sem nýr rekstrar­stjóri Aton.JL

Eiður Þór Árnason skrifar
Sif Jóhannsdóttir tekur sæti í framkvæmdastjórn.
Sif Jóhannsdóttir tekur sæti í framkvæmdastjórn. Aðsend

Sif Jóhannsdóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri samskiptafélagsins Aton.JL. Sif hefur undanfarin tvö ár starfað sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu en tekur nú sæti í framkvæmdastjórn félagsins.

Sif starfaði lengi við bókaútgáfu hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu og síðast við kynningu og sölu á íslenskum höfundum og verkum þeirra erlendis. Þá stýrði Sif um tíma kynningar- og markaðsmálum hjá útgáfufélaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aton.JL. Sif útskrifaðist með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2018 og er einnig með BA-gráðu í frönsku og bókmenntum frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún lagt stund á nám í verkefnastjórn í UCLA og breytingastjórnun í Harvard.

„Framundan eru mörg krefjandi verkefni og tækifæri hjá Aton.JL. Samskipti eru og verða eitt helsta sóknartækifæri fyrirtækja og þar er Aton.JL leiðandi og ætlar að vera áfram. Því er það okkur mikill fengur að fá Sif í framkvæmdastjórn okkar þar sem þekking hennar og reynsla mun styðja við framþróun okkar og vöxt“, segir Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL.

Yfir 40 sérfræðingar starfa hjá Aton.JL sem sérhæfir sig í ráðgjöf um samskipti, stefnumótun, hönnun og markaðssetningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×