Sprengingin er ótengd öðru verkefni sveitarinnar í næsta nágrenni þar sem lögreglu grunaði að torkennilegur hlutur á gámasvæði væri sprengja. Svo reyndist ekki vera og var um að ræða einhvers konar eftirlíkingu eða leikmun.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, kom vegfarandi og afhenti lögreglu fallbyssukúluna á meðan aðgerðirnar á gámasvæðinu stóðu enn yfir. Reyndist kúlan vera virk og gekk eyðingin vel.
Myndband náðist af sprengingunni sem sjá má í spilaranum hér fyrir neðan.
Að sögn Ásgeirs er ekki óalgengt að fólk hafi samband við lögreglu eða Gæsluna vegna muna úr seinni heimsstyrjöldinni sem leynist víða í náttúrunni og á heimilum.
Er fólk hvatt til þess að láta lögreglu vita ef það grunar að það hafi gengið fram á eða sé með sprengikúlur eða aðra muni úr seinni heimsstyrjöldinni í fórum sínum. Jafnframt segir Ásgeir mikilvægt að hreyfa ekki við slíkum hlutum.