Innlent

Sprengdu fall­byssu­­kúlu sem veg­farandi af­henti lög­reglu

Eiður Þór Árnason og Óttar Kolbeinsson Proppé skrifa
Sprengjan var sprengd upp skömmu eftir að aðgerðum lauk á gámasvæðinu í Þorlákshöfn. 
Sprengjan var sprengd upp skömmu eftir að aðgerðum lauk á gámasvæðinu í Þorlákshöfn.  Vísir/Vilhelm

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar sprengdi upp fallbyssukúlu í Þorlákshöfn á öðrum tímanum í dag. Um var að ræða virka kúlu frá seinni heimstyrjöldinni.

Sprengingin er ótengd öðru verkefni sveitarinnar í næsta nágrenni þar sem lögreglu grunaði að torkennilegur hlutur á gámasvæði væri sprengja. Svo reyndist ekki vera og var um að ræða einhvers konar eftirlíkingu eða leikmun.

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, kom vegfarandi og afhenti lögreglu fallbyssukúluna á meðan aðgerðirnar á gámasvæðinu stóðu enn yfir. Reyndist kúlan vera virk og gekk eyðingin vel.

Myndband náðist af sprengingunni sem sjá má í spilaranum hér fyrir neðan.

Að sögn Ásgeirs er ekki óalgengt að fólk hafi samband við lögreglu eða Gæsluna vegna muna úr seinni heimsstyrjöldinni sem leynist víða í náttúrunni og á heimilum.

Er fólk hvatt til þess að láta lögreglu vita ef það grunar að það hafi gengið fram á eða sé með sprengikúlur eða aðra muni úr seinni heimsstyrjöldinni í fórum sínum. Jafnframt segir Ásgeir mikilvægt að hreyfa ekki við slíkum hlutum.


Tengdar fréttir

Sprengjan í Þor­láks­höfn reyndist vera eftir­líking

Sprengjudeildir Landhelgisgæslunnar og sérsveitar Ríkislögreglustjóra voru kallaðar til á áttunda tímanum í morgun vegna torkennilegs hlutar sem fannst á gámasvæðinu í Þorlákshöfn. Aðgerðum lauk um klukkan um klukkan 13 og reyndist engin hætta vera á ferðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×