Fótbolti

„Mjög vont fyrir okkur ef að þetta færi í gegn“

Sindri Sverrisson skrifar
Knattspyrna kvenna hefur verið í stórsókn síðustu ár en hugmyndir Giannis Infantino um að halda HM örar gætu bitnað á þeim uppgangi.
Knattspyrna kvenna hefur verið í stórsókn síðustu ár en hugmyndir Giannis Infantino um að halda HM örar gætu bitnað á þeim uppgangi. vísir/hulda margrét

„Ég tel að það fari algjörlega gegn hagsmunum íslenskrar knattspyrnu,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, um hugmyndir forkólfa FIFA um að halda HM kvenna og karla í fótbolta annað hvert ár.

Vanda og aðrir formenn knattspyrnusambandanna á Norðurlöndum sendu frá sér ályktun í síðustu viku þar sem hugmyndum um að halda HM annað hvert ár var mótmælt með ansi skýrum hætti.

Heimsmeistaramótin hafa, fyrir utan hlé vegna seinni heimsstyrjaldarinnar, alltaf verið haldin á fjögurra ára fresti. HM kvenna er alltaf ári á eftir HM karla, svo að mótin eru aldrei á sama ári.

Lokakeppnir EM eru einnig á fjögurra ára fresti og þannig er því eitt stórmót í fótbolta á hverju sumri hjá Evrópuþjóðum. Þannig á að það vera áfram að mati Vöndu og að því er virðist flestra kollega hennar.

Fyrsta ferð Vöndu Sigurgeirsdóttur sem formanns KSÍ var til Kaupmannahafnar til fundar með formönnum hinna knattspyrnusambandanna á Norðurlöndum í síðustu viku.

Eftir að hafa setið fund með forystufólki knattspyrnusambandanna í Evrópu í vikunni, og með kollegum sínum á Norðurlöndum í síðustu viku, segir Vanda enga sjáanlega kosti við það að halda stórmót með tíðari hætti en nú er gert. 

Skiptir Ísland mjög miklu máli

Ókostirnir séu aftur á móti greinilegir, jafnvel fyrir þjóð sem aðeins einu sinni hefur kynnst því að komast á heimsmeistaramót:

„Þetta skiptir okkur mjög miklu máli. Þetta snýst ekki bara um hvort við séum á HM eða ekki. Þetta hefur áhrif á það hvernig leikjagluggarnir eru á hverju ári, og svo hefur þetta bara veruleg fjárhagsleg áhrif. Það hefur meiri áhrif á okkur en stóru knattspyrnusamböndin. Ef að tekjur frá FIFA og UEFA minnka umtalsvert þá hefur það mikil áhrif. Þess vegna segi ég að það yrði mjög vont fyrir okkur ef að þetta færi í gegn,“ segir Vanda í samtali við Vísi.

Ísland hefur einu sinni spilað á HM, þegar karlalandsliðið komst á HM í Rússlandi 2018.VÍSIR/VILHELM

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, hefur gert sína úttekt á áhrifum þess að halda stórmót með tíðari hætti og formenn og framkvæmdastjórar sambandanna í Evrópu fengu kynningu á henni á þriðjudaginn. Enginn af þeim hefur talað fyrir því að halda HM annað hvert ár, og knattspyrnusambönd Suður-Ameríku og Asíu hafa líkt og UEFA lýst sig mótfallin hugmyndinni.

„Sama hvar ber niður þá eru áhrifin neikvæð“

„Það er búið að skoða málið niður í þaula, út frá öllum þáttum knattspyrnunnar. Við fjárhagslegt tap bætist aukið álag á leikmenn, slæm áhrif varðandi sjónvarpstölur og áhorfendur, og á kvennafótboltann sem ég hef mjög miklar áhyggjur af. Þetta hefði líka áhrif á landsdeildirnar, til að mynda sumardeildirnar okkar hér heima. Sama hvar ber niður þá eru áhrifin neikvæð,“ segir Vanda.

Eins og fyrr segir hafa stórmót kvenna hingað til farið fram á oddatöluárum en stórmót karla á sléttum tölum (EM karla fór þó fram í ár og EM kvenna fer fram á næsta ári en þeim var frestað vegna kórónuveirufaraldursins).

HM og EM kvenna ýtt út úr sviðsljósi fjölmiðla

„Það er búinn að vera mjög mikill uppgangur í kvennafótboltanum, sem er alveg frábært. Það kom mjög skýrt fram á þessum fundi [forkólfa knattspyrnusambanda Evrópu] að það eru mjög margir sem hafa áhyggjur af kvennafótboltanum ef að þessar breytingar myndu ganga í gegn,“ segir Vanda en óttinn snýr að því að kvennamótin myndu falla í skuggann af karlamótunum:

„Fólk hefur til að mynda ekki endalausan tíma og peninga til að ferðast á leiki og fylgjast með stórmótum. HM og EM kvenna yrði ýtt út úr sviðsljósi fjölmiðla. Það eru margir sem deila áhyggjum af þessu.“

Vanda bendir einnig á að það geti bitnað illa á leikmönnum að halda HM annað hvert ár en það hefur verið gagnrýnt í handboltahreyfingunni hve mikið álag fylgir því að hafa stórmót á hverju ári, og jafnvel tvö.

„Ég hef heyrt í fólki úr handboltahreyfingunni og þetta er auðvitað eitthvað sem við höfum vitað í þónokkurn tíma – að álagið er mjög mikið. Því fylgir hætta á meiðslum og að íþróttafólkið brenni fyrr út. Það hafa því margir áhyggjur af auknu álagi á leikmenn,“ segir Vanda.

Nægt tilefni til að slíta sambandi við FIFA?

Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur þegar dregið í land með það að halda atkvæðagreiðslu þann 20. desember um hvort halda eigi HM á tveggja ára fresti. Þess í stað verður látið nægja að ræða um þessi mál á ráðstefnu þann dag.

Norrænu samböndin lýstu því yfir að þau myndu grípa til ráðstafana ef hugmyndir Infantinos yrðu að veruleika en þær ráðstafanir voru ekki skýrðar frekar. Gæti komið upp sú staða að samböndin myndu slíta sig frá FIFA?

„Ég veit það ekki. Ég get ekki sagt til um það. Við tökum þetta mjög alvarlega og höfum, öll samböndin á Norðurlöndum, miklar áhyggjur af afleiðingunum sem þetta myndi hafa. Ég vona bara að þetta verði dregið til baka,“ segir Vanda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×