Viðskipti innlent

Húsasmiðjunni lokað á Dalvík og Húsavík

Samúel Karl Ólason skrifar
Forsvarsmenn Húsasmiðjunnar segja rekstur verslana á Húsavík og Dalvík hafa verið erfiðan undanfarin ár.
Forsvarsmenn Húsasmiðjunnar segja rekstur verslana á Húsavík og Dalvík hafa verið erfiðan undanfarin ár. Vísir/Vilhelm

Verslunum Húsasmiðjunnar á Dalvík og Húsavík verður lokað um næstu áramót. Starfsmönnum fyrirtækisins í bæjunum verður boðið að vinna í nýrri verslun á Akureyri sem opna á á Freyjunesi á næsta ári.

Í tilkynningu frá Húsasmiðjunni segir að forsvarsmenn fyrirtækisins séu meðvitaðir um mikilvægi þess að smærri og dreifðari byggðir landsins hafi aðgang að góðri þjónustu í heimabyggð. Rekstur verslananna á Húsavík og Dalvík hafi þó reynst þungur undanfarin ár.

„Hörð samkeppni, aukin vefverslun og fleiri breytingar á markaði hafa gert það að verkum að rekstur byggingavöruverslana og timbursölu á sér ekki grundvöll á þessum stöðum,“ segir í tilkynningunni.

Þar er einnig haft eftir Árna Stefánssyni, forstjóra, að þessi ákvörðun hafi reynst þungbær.

„Við munum þrátt fyrir þessa breytingu kappkosta að þjónusta viðskiptavini á Norðurlandi vel, þar á meðal á Dalvík og Húsavík. Jafnframt mun söluskrifstofa verða opnuð á Húsavík í upphafi næsta árs með ráðgjöf fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×