Viðskipti innlent

SE gefur grænt ljós á kaup Nor­dic Visitor á Iceland Tra­vel

Eiður Þór Árnason skrifar
Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor.
Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið (SE) hefur samþykkt kaup ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor hf. á Iceland Travel ehf. Komst eftirlitið að þeirri niðurstöðu að ekki yrði til markaðsráðandi staða eða umtalsverð röskun á samkeppni með samrunanum og því væri ekki tilefni til íhlutunar.

Greint var frá því í júní að Nordic Visitor hafi gert samning um kaup á 100 prósenta hlut Icelandair Group í ferðaþjónustufyrirtækinu Iceland Travel. Iceland Travel rekur starfsemi á Íslandi, Skotlandi og í Skandinavíu og selur ferðir beint til neytenda og alþjóðlegra endursöluaðila. 

Í ákvörðun SE segir að markaðshlutdeild samrunaaðila sé að öllum líkindum með þeim hætti að samruninn hafi ekki í för með sér skaðlega samþjöppun umfram viðurkennd viðmið samkeppnisréttar.

Þá hefur rannsókn Samkeppniseftirlitsins ekki leitt í ljós önnur neikvæð lárétt áhrif eða samsteypuáhrif vegna samrunans sem réttlæta íhlutun af hálfu eftirlitsins. 

Samruninn hefur aftur á móti jákvæð lóðrétt áhrif að mati eftirlitsins að því leyti að ferðaskrifstofan Iceland Travel verður í kjölfar samrunans ekki lengur hluti af fyrirtækjasamstæðu Icelandair Group. Missir ferðaskrifstofan og Icelandair þar með lóðrétt samþætta stöðu fyrir hótelgistingu, flug, skipulagningu og sölu ferða til Íslands, þótt möguleg framtíðaráform Icelandair að þessu leyti liggi ekki fyrir.

Icelandair Group hefur ákveðið að einblína á flugrekstur og hefur stefnt að því að selja hin ýmsu fyrirtæki sem tengjast flugrekstri ekki beint. Félagið seldi til að mynda eftirstandandi hlut sinn í hótelfélaginu Icelandair Hotels fyrr á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×