Hingað til hafa 64 prósent barna á aldrinum tólf til fimmtán ára verið fullbólusett en bólusetning þeirra hófst síðastliðinn ágúst. Að því er kemur fram á covid.is hafa í heildina 11.973 börn verið fullbólusett og er bólusetning hafin hjá 1.216 til viðbótar.
Yfirvöld binda vonir við að bráðlega verði hægt að bjóða börnum á aldrinum sex til ellefu ára bólusetningu með bóluefni Pfizer. Rannsókn á notkun bóluefnisins á þann aldurshóp er nú lokið og er reiknað með að leyfi fyrir notkun bóluefnis hjá þessum hóp verði veitt fyrir áramót.
Heilbrigðisráðuneytið segir mikilvægt að fólk þiggi bólusetningu til að verja samfélagið gegn útbreiddu smiti og auknu álagi á heilbrigðiskerfið þar sem smitum hér á landi hefur fjölgað nokkuð undanfarið.
Litið er meðal annars til annarra landa í Evrópu þar sem fjölgun smita er enn hraðari og sjúkrahúsainnlögnum fjölgar ört.
Um 76% landsmanna eru nú fullbólusett en til að fyrirbyggja hraðari útbreiðslu og mikil veikindi þarf að gera betur að mati ráðuneytisins. Um 34.400 einstaklingar 12 ára og eldri eru óbólusettir en í heildina eru 89 prósent 12 ára og eldri fullbólusettir.
Einnig er mælt með að fólk sem að hefur fengið boð í örvunarbólusetningu mæti í hana en sóttvarnalæknir mælir með örvunarbólusetningu fyrir alla 60 ára og eldri, heilbrigðisstarfsfólk, íbúa á hjúkrunarheimilum og tiltekna viðkvæma hópa.
Heilsugæslan annast örvunarbólusetningar og munu allir sem eru 60 ára og eldri fá boð um slíkt. Nú þegar hafa um 59 prósent heilbrigðisstarfsfólks fengið örvunarskammt, um 68 prósent íbúa á hjúkrunarheimilum og um 57 prósent annarra sem eru 60 ára og eldri.