Körfubolti

Þjálfarinn farinn frá Skallagrími eftir 55 stiga tap fyrir Njarðvík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skallagrímur hefur tapað öllum leikjum sínum í Subway-deild kvenna.
Skallagrímur hefur tapað öllum leikjum sínum í Subway-deild kvenna. vísir/vilhelm

Goran Miljevic er hættur sem þjálfari kvennaliðs Skallagríms í körfubolta. Hann stýrði því í síðasta sinn þegar það tapaði fyrir Njarðvík, 31-86, á heimavelli í Subway-deildinni í gær.

Skallagrímur hefur tapað öllum sex leikjum sínum í Subway-deildinni með samtals 214 stigum. Í tveimur af þessum leikjum hafa Borgnesingar skorað 31 stig eða minna.

Miljevic tók við Skallagrími í sumar af Guðrúnu Ósk Ámundadóttur en samstarfið stóð ekki lengur. Í yfirlýsingu frá Skallagrími í gærkvöldi kom fram að stjórn körfuknattleiksdeildar félagsins og Miljevic hefðu komist að samkomulagi um að hann láti af störfum sem þjálfari liðsins.

Næsti leikur Skallagríms er gegn Grindavík á útivelli á miðvikudaginn. Ekki liggur fyrir hver stýrir Borgnesingum í þeim leik.

Ekki er nema rúmt ár síðan Skallagrímur varð bikarmeistari en núna stefnir liðið hraðbyri niður í 1. deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×