Arion banki, Landsbanki og Íslandsbanki kynntu uppjör sín fyrir þriðja ársfjórðung ársins í vikunni. Samtals högnuðust þeir um 23 milljarða króna á ársfjórðungnum, sem er rúmlega tvöföldun frá sama ársfjórðungi síðasta árs, þegar hagnaðurinn nam ellefu milljörðum króna.
Arion banki hagnaðist mest á ársfjórðungnum, um 8,2 milljarða. Því næst Íslandsbanki en hann hagnaðist um 7,6 milljarða. Landsbankinn rekur lestina með 7,5 milljarða hagnað.
Sé litið til fyrstu níu mánaða ársins er ljóst að hagnaður bankanna hefur aukist mjög á milli ára. Arion banki hefur hagnast um 22,1 milljarð á árinu, Landsbankinn um 21,6 milljarða króna og Íslandsbanki um 16,6 milljarða króna. Alls eru þetta rétt rúmlega 60 milljarðar króna
Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs hagnaðist Arion banki um 6,7 milljarða króna, Íslandsbanki um 3,2 milljarða króna og Landsbankinn um 700 milljónir króna. Alls högnuðust bankarnir þrír því um 10,6 milljarða króna á síðasta ári.
Hagnaður bankanna þriggja hefur því nærri sexfaldast, farið úr 10,6 milljörðum króna í 60 milljarða króna, sé fyrstu níu mánuðir síðasta árs bornir saman við fyrstu níu mánuði þessa árs.