Sérfræðingar bandarísku matvæla- og lyfjastofnunarinnar (FDA) mæltu í vikunni með því að börn á aldrinum fimm til ellefu ára verði bólusett við kórónuveirunni með bóluefni Pfizer. Búist er við að byrjað verði að bólusetja börn allt niður í fimm ára þar í landi strax í næstu viku.
Frá því að Delta afbrigði kórónuveirunnar hóf að breiðast út hafa börn smitast af kórónuveirunni í meira mæli. Forsvarsmenn fyrirtækisins óskuðu því eftir leyfinu þar sem þeir telja að bólusetningar barna á þessum aldri geti tryggt það að skólar haldist opnir og samfélagið gangandi.
Á Íslandi hafa börn líkt og annars staðar í auknu mæli greinst með veiruna. Aðeins hefur þó verið heimilt að bólusetja börn tólf ára og eldri gegn veirunni.
Lyfjastofnun segir í svari til fréttastofu að í skoðun sé hvort að gefið verði leyfi fyrir því að nota bóluefni Pfizers fyrir aldurshópinn 5-11 ára hér á landi. Reiknað er með að niðurstaða geti legið fyrir eftir um tvo mánuði. Verði niðurstaða nefndarinnar jákvæð sé það yfirvalda í hverju landi að ákveða hvort boðið verður upp á bólusetningu fyrir börn á þessum aldri. Hérlendis er það ákvörðun sóttvarnalæknis.