Körfubolti

DeMar DeRozan sá til þess að Utah Jazz tapaði sínum fyrsta leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
DeMar DeRozan fór fyrir liði Chicago Bulls í nótt.
DeMar DeRozan fór fyrir liði Chicago Bulls í nótt. Cole Burston/Getty Images

DeMar DeRozan fór fyrir liði Chicago Bulls er liðið varð fyrst allra til að leggja Utah Jazz á tímabilinu í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 107-99. Alls fóru fram ellefu leikir í nótt.

Jafnt var á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik í leik Chicago Bulls og Utah Jazz í nótt, en að loknum tveim leikhlutum var staðan 57-54, Utah í vil. 

Það var þó helst flottur þriðji leikhluti sem skilaði Chicago sigrinum þar sem þeir héldu andstæðingum sínum í aðeins 15 stigum og settu sjálfir niður 25. Lokatölur urðu eins og áður segir 107-99 og fyrsta tap Utah Jazz á tímabilinu því staðreynd.

DeMar DeRozan setti niður 32 stig fyrir Chicago og tók auk þess sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Í liði Jutah var Donovan Mitchell atkvæðamestur með 30 stig.

Leikur Boston Celtics og Wahington Wizards bauð upp á tvöfalda framlengingu þar sem að þeir síðarnefndu höfðu betur 115-112.

Leikurinn var jafn og spennandi allt frá fyrstu mínútu, en þegar flautað var til hálfleiks höfðu Washington-menn sex stiga forskot. Sama jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og að loknum fjórum leikhlutum var allt jafnt, 103-103.

Ekki tókst að skilja liðin að í einni framlengingu, svo grípa þurfti til annarrar til að knýja fram sigurvegara. Þar höfðu Washington-menn betur og fögnuðu því góðum þriggja stiga sigri.

Bradley Beal fór fyrir sóknarleik Washington og skoraði 36 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar, en í liði Boston var það Jaylen Brown sem var stigahæstur með 34 stig.

Jimmi Butler var atkvæðamestur í liði Miami Heat þegar liðið lagði Memphis Grizzlies með 26 stiga mun, 129-103. Butler setti niður 27 stig, tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Miami-menn voru heitir fyrir utan þriggja stiga línuna og settu niður hvorki meira né minna en 21 þrist.

Úrslit næturinnar

Boston Celtics 112-115 Washinton Wizards

Orlando Magic 103-110 Detroit Pistons

New York Knicks 123-117 New Orleans Pelicans

Toronto Raptors 97-94 Indiana Pacers

Atlanta Hawks 94-122 Philadelphia 76ers

Utah Jazz 99-107 Chicago Bulls

Miami Heat 129-103 Memphis Grizzlies

San Antonio Spurs 102-93 Milwaukee Bucks

Oklahoma City Thunder 82-103 Golden State Warriors

Denver Nuggets 93-91 Minnesota Timberwolves

Cleveland Cavaliers 92-101 Phoenix Suns

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×