Fótbolti

Chelsea og Arsenal í úr­slit FA-bikarsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Englandsmeistarar Chelsea eru komnar í úrslit FA-bikarsins.
Englandsmeistarar Chelsea eru komnar í úrslit FA-bikarsins. Twitter/@VitalityWFACup

Undanúrslit FA-bikars kvenna í knattspyrnu frá því á síðustu leiktíð fóru fram í dag. Var þeim upphaflega frestað sökum kórónufaraldursins. Chelsea og Arsenal unnu bæði 3-0 sigra og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum sem fram fer þann 5. desember næstkomandi.

Chelsea og Manchester City mættust í stórleik undanúrslitanna. Chelsea er í leit að þrennunni eftir að hafa unnið deild og deildarbikar á síðustu leiktíð. Fór það svo að Chelsea vann öruggan 3-0 sigur í dag.

Erin Cuthbert kom Chelsea yfir á 23. mínútu og Melanie Leupolz tvöfaldaði forystuna fimm mínútum síðar. Staðan 2-0 í hálfleik. Bethany England bætti við þriðja markinu undir lok venjulegs leiktíma og lauk leiknum með 3-0 sigri Englandsmeistaranna.

Eftir markalausan fyrri hálfleik í leik Arsenal og Brighton þá vöknuðu heimakonur. Kim Little kom Arsenal yfir eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik og Bethany Mead bætti við öðru marki liðsins aðeins fjórum mínútum síðar.

Leah Williamson gerði svo endanlega út um leikinn með þriðja marki Arsenal þegar tæplega stundarfjórðungur var til leiksloka. 

Lokatölur 3-0 og ljóst að Arsenal mætir Chelsea í úrslitum FA-bikarsins tímabilið 2020/2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×