Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en þar kemur fram að hrúturinn Muninn hafi nú verið felldur og hvetur Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins bændur til að fella afkvæði hans eða hið minnsta að nota þau ekki til undaneldis.
Að sögn Eyþórs Einarssonar, ráðunautar hjá RML, er erfðagallinn víkjandi. Það þýðir að bæði hrúturinn og ærin þurfa að vera með gallann til þess að lambið erfi hann. Erfðagallinn er vel þekktur hérlendis og í Noregi og á Írlandi en hefur ekki komið upp á sæðingastöð í langan tíma.
„Þetta hefur verið þekkt í sauðfé hér á landi mjög lengi og er einn af fyrstu erfðagöllunum sem var lýst. En það eru rúmlega tuttugu ár síðan það var síðast grunur um gallann hjá hrút á sæðingastöð,“ segir Eyþór.