G Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að um þetta leyti sé verið að opna austasta kafla vegarins, þar sem beygt er upp á Þingvelli og Þrastarlund.
„Síðan held ég að það séu mestar líkur á því að þetta verk einfaldlega klárist, þannig að það sé hægt að opna fyrir umferð næsta sumar eða haust. Það er þá ári á undan,“ sagði G. Pétur

Farið var yfir víðan völl í viðtalinu við G. Pétur. Til að mynda var talað um lokun Norðfjarðarganga, göng yfir höfuð og það að umferðin á þjóðveginum í október hafi verið sú mesta hingað til. Hlusta má á spjallið í spilaranum hér að neðan.
Norðfjarðargöngum var lokað fyrr í vikunni eftir að steypa hrundi úr lofti ganganna. Göngin eru enn lokuð að mestu leyti en flutningabílum er hleypt í gegn í hollum reglulega en hægt er að keyra minni bílum í gegnum Oddskarðsgöngin.
G. Pétur sagði að ekki ætti að hrynja úr göngum en í þessu tilviki sé laust berglag fyrir ofan göngin á þessu svæði. Vandamálið við Ísland og jarðgöng sé að jarðfræðilega séð sé landið mjög ungt.
Þetta hafi þó ekki verið mikið sem hrundi og slíkt sé mjög sjaldgæft.