Hannah Gutierrez Reed, vopnavörðurinn, segist hafa skoðað byssuna og segist ekki vita hvernig byssukúla rataði í hana.
„Hver setti hana þarna og af hverju er lykilspurningin,“ sagði Gutierrez Reed í yfirlýsingu sem lögmaður hennar sendi út í gærkvöldi. Í yfirlýsingunni segir að hún hafi haft byssurnar læstar í skáp og þar hafi þær verið í hádegishléinu þann 21. október þegar Hutchins var skotin.
Sjá einnig: Baldwin rýfur þögnina um skotið sem banaði Halynu Hutchins
„Hannah gerði allt sem í hennar valdi stóð til að tryggja öryggi á tökustað,“ segir í yfirlýsingunni samkvæmt AP fréttaveitunni. „Hún skoðaði skotin sem hún setti í byssurnar þennan dag. Hún skoðaði alltaf skotin.“
Þar segir einnig að hún hafi sýnt David Halls, aðstoðarleikstjóra Rust, byssuna og skotin sem hafi verið í henni áður en hann tók við henni.

Halls rétti Baldwin byssuna og tilkynnti að hún væri óhlaðin. Þegar leikarinn var svo að æfa það að draga byssuna upp úr slíðri fyrir framan myndavél hljóp úr henni skot sem hæfði Hutchins og Joel Souza, leikstjóra myndarinnar.
Sjá einnig: Halls viðurkennir að hafa ekki skoðað byssuna nógu vandlega
Guttierrez Reed hefur áður sagt að hún viti ekki hvaðan skotið kom en samkvæmt reglum á tökustöðum vestanhafs og víðar eru hefðbundin skot bönnuð. Fógetinn í Santa Fe hefur sagt að um fimm hundruð skot hafi fundist á tökustað. Þar hafi bæði verið um að ræða púðurskot, gerviskot og skot sem talin eru vera hefðbundin.
Sjá einnig: Telja hefðbundna kúlu hafa verið í byssunni
Fógetinn hefur sömuleiðis sagt að vísbendingar hafi fundist um að starfsmenn Rust hafi farið gáleysislega með öryggisreglur.