Viðskipti innlent

Birna for­maður stjórnar Ljós­leiðarans og Vala inn í stjórn OR

Eiður Þór Árnason skrifar
Birna Bragadóttir og Vala Valtýsdóttir. 
Birna Bragadóttir og Vala Valtýsdóttir.  Samsett

Birna Bragadóttir hefur tekið við formennsku í stjórn Ljósleiðarans en hún hefur átt sæti í stjórn fyrirtækisins, sem áður hét Gagnaveita Reykjavíkur, frá árinu 2019.

Ljósleiðarinn er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur (OR) en greint var frá því í dag að Vala Valtýsdóttir lögmaður hafi tekið sæti í stjórn OR. Vala kemur inn í stjórnina í stað Sigríðar Rutar Júlíusdóttur sem hefur verið skipuð dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. 

Fram kemur í tilkynningu frá Ljósleiðaranum að Birna Bragadóttir sé forstöðukona Elliðaárstöðvar, sögu- og tæknisýningar OR í Elliðaárdal. Þá hafi hún víðtæka reynslu úr atvinnulífinu á sviði stjórnunar, mannauðs- og jafnréttismála, breytingastjórnunar og markaðs- og þjónustustjórnunar. 

Birna hefur starfað sem framkvæmdastjóri Sandhotel, starfsþróunarstjóri OR og við mannauðs-, fræðslu- og þjónustustjórnun hjá Icelandair. Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Hún er jafnframt stjórnendamarkþjálfi frá Coach University. Birna er einnig stjórnarformaður Hönnunarsjóðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×