Innlent

Eðlilegt að viðræður taki lengri tíma en venjulega

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Guðni segir eftirmála talningarinnar í Norðvesturkjördæmi meðal þess sem veldur því að viðræðurnar taki lengri tíma en áður.
Guðni segir eftirmála talningarinnar í Norðvesturkjördæmi meðal þess sem veldur því að viðræðurnar taki lengri tíma en áður. Vísir/Egill

Formenn stjórnarflokkanna þriggja komu saman í gær til að halda áfram viðræðum sínum um myndun ríkisstjórnar, líkt og þeir hafa gert frá því að landsmenn gengu að kjörborðinu fyrir sex vikum síðan. 

Síðast tók fjórar vikur að mynda ríkisstjórn en forseti Íslands segir að eðlilegar skýringar séu á lengd viðræðnanna.

„Fyrr á tíð þegar ríkisstjórn hélt velli eftir kosningar og hélt sínu striki þá tók ekki þetta langan tíma að ná sátt um framhaldið en allt er þetta breytingum háð og allt hefur þetta sinn sérstaka brag. Og nú setur það auðvitað svip á þessar umræður að upp komu kærur í Norðvesturkjördæmi eftir kosningarnar og sjálfsagt að viðræður taki meðal annars mið af því,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, um stjórnarmyndunarviðræðurnar.

Ríkisstjórnin hefur einnig lýst því yfir að bíða þurfi eftir niðurstöðu undirbúningskjörbréfanefndar áður en formlegar ákvarðanir verða teknar.

Lögum samkvæmt þarf Alþingi að koma saman eftir fjórar vikur, óháð því hvort búið verði að mynda nýja ríkisstjórn eða ekki. Væntanlega dragi til tíðinda á næstu dögum, spáir Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×