Innlent

Níu ökumenn stöðvaðir í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Níu voru stöðvaðir af lögreglu í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna. 
Níu voru stöðvaðir af lögreglu í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna.  Vísir/Vilhelm

Níu ökumenn voru stöðvaðir af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum. Þetta kemur fram í dagbókarfærslu lögreglu. 

Dagbók lögreglu barst fjölmiðlum nú á ellefta tímanum, nokkuð seinna en almennt, en skrif dagbókarfærslunnar tafðist vegna anna. Samkvæmt dagbókarfærslunni var töluvert um það í nótt að lögregla stöðvaði ökumenn grunaða um ölvun við akstur og/eða undir áhrifum fíkniefna. Þá voru nokkrar líkamsárásir tilklynntar. 

Níu ökumenn voru stöðvaðir af lögreglu í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna en var þeim öllum sleppt að blóðsýnatöku lokinni. 

Einn lögreglumaður þurfti að leita á sjúkrahús eftir að hafa verið bitinn við störf sín og er málið til rannsóknar. Athygli vakti hjá blaðamanni að tveir lögreglumenn til viðbótar voru bitnir við störf sín í fyrrinótt. 

Tilkynnt var um líkamsárás og eignarspjöll á tólfta tímanum á skemmtistað í miðbænum. Þá var tilkynnt um aðra líkamsárás á skemmtistað í miðbænum á öðrum tímanum í nótt og var árásaraðilinn handtekinn á vettvangi og gistir í fangageymslum lögreglu. Tilkynnt var um þriðju líkamsárásina í Árbæ á þriðja tímanum og gisti gerandinn í fangageymslum í nótt. 

Umferðarslys varð rétt eftir klukkan tvö í miðbænum þegar einstakingur datt af rafhlaupahjóli. Fékk hann nokkra áverka í andlit og brotnaði tönn við fallið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×