„Það er mjög erfitt að predika einhverjar ráðstafanir og hvetja samstöðu í samfélaginu, hvetja alla til að fara eftir reglum, þegar svona stór hópur samfélagsins, forsvarsmenn samfélagsins í stjórnmálum, í fjölmiðlum, er að tala gegn því sem er verið að gera og jafnvel að gera grín að því og tala það niður,” segir Þórólfur, sem var til viðtals í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Þá er þetta mjög snúið og þannig hefur staðan verið undanfarið. Þetta hefur verið talað mjög mikið niður og það var meðal annars þess vegna sem ég úttalaði mig einhvern tímann að mér fannst ég eins og hrópandi í eyðimörkinni, einn að kalla: passið ykkur og það var gert lítið úr því.”
Líkt og greint hefur verið frá náðist ekki samstaða innan ríkisstjórnarinnar í vikunni um næstu aðgerðir innanlands. Heilbrigðisráðherra sagði að þegar upp sé staðið sé það hún sem beri ábyrgð, og greip til hertra takmarkana, setti grímuskyldu á að nýju og færði fjöldatakmarkanir úr 2000 manns í 500 manns. Bæði fjármála- og dómsmálaráðherra hafa lýst yfir vonbrigðum með aðgerðirnar og vísa til þess að stærstur hluti þjóðarinnar sé bólusettur og fáir veikist alvarlega.
„Mér finnst að þeir sem eru í forsvari og eru áberandi, fólk sem ber ábyrgð, að það þurfi aðeins að bera meiri ábyrgð á orðum sínum og hugsa málið aðeins lengra – til enda. Það er ekki nóg að vilja bara hafa hlutina einhvern veginn öðruvísi og ræða það ekkert áfram hvað gerist ef við gerum þetta eða gerum hitt,” segir Þórólfur.
Þá megi ekki gera lítið úr þeirri staðreynd að um tvö prósent smitaðra veikist alvarlega. Það komi glögglega í ljós á Landspítalanum.
„Landspítalinn er að lenda í verulegum vandræðum, er kominn á hættustig. og það má ekkert mikið út af bregða til þess að hann lendi í enn verri stöðu.”
Hlusta má á allt viðtalið við Þórólf í spilaranum hér fyrir neðan.