Innlent

Isavia sýknað af bóta­kröfu vegna út­boðs á verslunar­rými

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í síðasta mánuði Isavia af bótakröfu fyrirtækisins Drífu ehf., sem fer með rekstur Icewear. Drífa krafðist bóta úr hendi Isavia vegna þess að fyrirtækinu var ekki úthlutað verslunarrými á Keflavíkurflugvelli í kjölfar útboðs árið 2014.

Dómurinn féll þann 13. október en var birtur á vef héraðsdómstólanna í dag. RÚV greindi fyrst frá dóminum.

Eftir að hafa ekki fengið úthlutað verslunarrými kærði Drífa ehf. útboðið til kærunefndar útboðsmála en nefndin vísaði málinu frá. Fyrirtækið hafi í kjölfarið höfðað mál og farið fram á skaðabætur úr hendi Isavia.

Isavia var sýknað af kröfum Drífu í héraði fyrir þremur árum síðar, en Landsréttur felldi dóminn úr gildi og vísaði málinu aftur til héraðsdóms þar sem sérfróður meðdómsmaður hafi ekki verið skipaður við meðferð málsins.

Í dóminum sem féll í síðasta mánuði var ekki fallist á að Isavia, eða nefndarmenn Isavia í forvalinu, hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við meðhöndlun á tilboði Drífu ehf. í útboðinu. Þvert á móti var talið að umgjörð forvalsins hafi verið vönduð, jafnræðis og gagnsæis hafi verið gætt í hvívetna og að lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi ráðið för við afgreiðslu tilboðsins.

Isavia var því sýknað af dómkröfum Drífu og málskostnaður felldur niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×