Innlent

Fjórði til fimmti hver hættir í hjúkrun innan fimm ára frá útskrift

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það hefur mætt mikið á hjúkrunarfræðingum í kórónuveirufaraldrinum.
Það hefur mætt mikið á hjúkrunarfræðingum í kórónuveirufaraldrinum. Mynd/Einar Árnason

Á Landspítalanum starfa nærri 1.600 hjúkrunarfræðingar í 1.340 stöðugildum en spítalann vantar 200 til viðbótar til að vel megi við una. Þetta hefur Morgunblaðið eftir Sigríði Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Athygli vekur að starfandi félagar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru 3.600 talsins en þeir sem starfa við annað en hjúkrun tilheyra yfirleitt öðrum stéttarfélögum. Að sögn Guðbjargar Pálsdóttur, formanns FÍH, hættir fjórði til fimmti hver hjúkrunarfræðingur störfum í hjúkrun innan fimm ára frá útskrift og þessir einstaklingar skila sér ekki til baka.

„Ein ástæða er launin,“ hefur Morgunblaðið eftir Guðbjörgu. „Við erum nú með gerðardóm númer tvö á launaliðinn árið 2020. Það getur engin stétt búið við það.“

Um 55 prósent starfandi hjúkrunarfræðinga séu starfsmenn Landspítala, þar sem starfsumhverfið sé óviðunandi. Það vanti langtímastefnu til að vinna upp viðvarandi skort á hjúkrunarfræðingum.

„Þjóðin er að eldast og fólk lifir af flóknari sjúkdóma en áður og flóknar afleiðingar slysa. Þrátt fyrir mikla tækniþróun verður alltaf þörf fyrir hjúkrunarfræðinga,“ segir Guðbjörg.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×