Fótbolti

Sagður ekki svara símtölunum frá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dusan Vlahovic er stór og stæðilegur framherji sem vill ekki framlengja samning sinn hjá Fiorentina.
Dusan Vlahovic er stór og stæðilegur framherji sem vill ekki framlengja samning sinn hjá Fiorentina. Getty/Nicolò Campo

Það lítur út fyrir að ekkert verði að kaupum Arsenal á Fiorentina leikmanninum Dusan Vlahovic í janúarglugganum. Eitt aðalvandamálið er að umboðsmaður leikmannsins hætti að svara í símann.

Arsenal átti að vera í forystu í kapphlaupinu um serbneska framherjann en Tottenham var ekki tilbúið að borga þær 68 milljónir punda sem Fiorentina vill fá fyrir hann.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var aftur á móti búinn að sannfæra sína yfirmenn hjá Arsenal um að eyða svona miklum pening í þennan 190 sentímetra og 21 árs gamla framherjan sem hefur þegar skorað sex landsliðsmörk fyrir Serbíu.

Ítalski blaðamaðurinn Gianluca di Marzio hefur heimildir fyrir því að Arsenal hafi ekki náð sambandi við umboðsmann leikmannsins sem vill greinilega ekki svara símanum sínum þegar þeir hringja.

Fyrir vikið hefur Arsenal ekki komist neitt lengra í að ganga frá kaupunum á Dusan Vlahovic í janúar. Enska félagið sé komið vel á veg í viðræðum við félagið en umboðsmaðurinn passar upp á það að láta ekki ná í sig.

Samningur Dusan Vlahovic rennur út árið 2023 og ef að hann verður ekki seldur í janúar þá er líklegt að hann verði seldur í sumar því hann vill ekki framlengja samning sinn í Flórens.

Vlahovic er með átta mörk og eina stoðsendingu í tólf deildarleikjum með Fiorentina á þessu tímabili en hann skoraði þrennu á móti Spezia og tvö mörk á móti Atalanta. Hann er því að fylgja vel á eftir síðasta tímabili þegar hann var með 21 mark í 37 deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×