Í tilkynningu frá Ferðamálastofu segir að horfa þurfi til ársins 2015 til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega í októbermánuði. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða tæplega þriðjungur.
Frá áramótum hafa um 548 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi og er um að ræða 17,3 prósenta fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra þegar brottfarir erlendra farþega voru um 467 þúsund. Borið saman við 2019 er fækkunin hins vegar 68 prósent.
„Langflestar brottfarir í október má rekja til Bandaríkjamanna eða tæplega þriðjung (31,7%). Bretar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru um 10.200 talsins eða 9,9% af heild. Í þriðja sæti voru brottfarir Þjóðverja, um 9,1% af heild og í því fjórða Danir, um 5,3% af heild.
Þar á eftir fylgdu brottfarir Pólverja (5,2% af heild), Spánverja (4,3% af heild), Ítala (4,3% af heild), Frakka (3,6% af heild), Hollendinga (3,6% af heild) og Kanadabúa (1,9% af heild). Samtals voru brottfarir tíu stærstu þjóðerna 79,5% af heild,“ segir í tilkynningunni.
Brottfarir Íslendinga í síðasta mánuði voru tæplega 40 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um tæplega fjögur þúsund. Brottfarir Íslendinga frá áramótum eru um 152 þúsund eða um fimmtungi fleiri en á sama tímabili í fyrra.