Móðir Calhoun staðfestir andlátið á síðu þar sem safnað er fyrir útför hans. Þar segir að hann hafi andast af völdum hjartabilunar.
Í myndinni Monster‘s Ball túlkaði Calhoun hinn listræna pilt Tyrell, sem þarf að þola einelti og árásir vegna offitu sinnar. Calhoun var einungis tíu ára þegar hann lék í myndinni, en hann birtist ekki í fleiri kvikmyndum eða þáttum.
Halle Berry, sem vann til Óskarsverðlauna fyrir hlutverkið í myndinni, og leikstjóri myndarinnar, Lee Daniels, hafa bæði lagt til fé til að standa straum af útförinni. Í frétt BBC kemur fram að Theresa C Bailey, móðir Calhoun, segist mjög hissa á öllum þeim stuðningi sem fjölskyldunni hafi borist vegna andlátsins.
Myndin Monster‘s Ball fjallaði um samband Leticia Musgrove (Berry) og Hank Grotowski, sem Billy Bob Thornton leikur. Til að byrja með er þeim ekki kunnugt um að Leticia sé ekkja manns sem Hank átti þátt í að taka af lífi.