Erlent

Tvö hand­tekin grunuð um að hafa stungið tvö börn og kastað úr mikilli hæð

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Hässelby, úthverfi Stokkhólms.
Atvikið átti sér stað í Hässelby, úthverfi Stokkhólms. EPA

Tveir fullorðnir einstaklingar hafa verið handteknir eftir að tvö börn fundust alvarlega slösuð fyrir utan fjölbýlishús í úthverfi sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms í gærkvöldi. Annað barnið var síðar úrskurðað látið á sjúkrahúsi og er hitt alvarlega sært.

Sænskir fjölmiðlar greina frá því að hin handteknu séu grunuð um að hafa stungið börnin með hníf og síðar kastað þeim út af svölum eða glugga hússins.

Lögregla var kölluð út að húsinu, sem er að finna í hverfinu Hässelby, vestur af Stokkhólmi, skömmu fyrir klukkan 22 að staðartíma í gærkvöldi. Þar hafi verið tilkynnt um tvö illa særð börn, bæði yngri en tíu ára.

Samkvæmt heimildum Aftonbladet fannst sömuleiðis fullorðinn einstaklingur særður í einni íbúð hússins.

Lögregla var með mikinn viðbúnað á staðnum og var fjöldi sjúkrabíla sendur á vettvang.

Helena Boström Thomas, talsmaður lögreglu, staðfestir að morðrannsókn sé hafin og að talið sé að börnunum hafi verið kastað úr húsinu af svölum eða glugga í um fimmtán metra hæð.

Hún staðfestir að hin handteknu tengist börnunum, en annar hinna handteknu er sá sem fannst særður í íbúðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×