Erlent

Bann­on gefur sig fram við lög­reglu

Árni Sæberg og Fanndís Birna Logadóttir skrifa
Steve Bannon ávarpaði fjölmiðla fyrir fram lögreglustöð í Washington.
Steve Bannon ávarpaði fjölmiðla fyrir fram lögreglustöð í Washington. Win McNamee/Getty Images

Steve Bannon, fyrrverandi aðstoðarmaður og einn helsti stuðningsmaður Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur nú gefið sig fram til alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum.

Bannon hefur verið ákærður fyrir að sýna Bandaríkjaþingi vanvirðingu. Hann á von á allt að eins árs fangelsisdóm verði hann fundinn sekur og sekt upp á hundrað þúsund Bandaríkjadali.

Meirihluti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í síðasta mánuði að ákæra Bannon eftir að hann neitaði að mæta á fund þingnefndar sem rannsakar árásina á þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn. Átti hann þar að svara spurningum um hvað hann vissi um áform Trumps daginn sem að stuðningsmenn hans gerðu áhlaup á þinghúsið.

Í frétt The Guardian segir að Bannon hafi verið umkringdur fréttamönnum þegar hann mætti á stöð Alríkislöglegunnar í Washington í morgun. Einn mótmælandi hafi verið á svæðinu með skilti sem á stóð „Skipuleggjandi valdaráns,“

Bannon hvatti stuðningsmenn sína til dáða í morgun. „Ég vil ekki að neinn taki augun af boltanum. Við erum að berjast gegn ógnarstjórn Bidens á hverjum degi. Ég vil að þið haldið einbeitingu og haldið ykkur við efnið,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×