Innlent

Gátu ekkert gert nema fylgjast með ferða­manninum fljóta burt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Reynisfjara er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna hér á landi.
Reynisfjara er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna hér á landi. Vísir/Friðrik Þór

Aðstæður í Reynisfjöru í síðustu viku þar sem ung kínversk kona lést af slysförum voru það erfiðar að ekki þótti stætt að leggja björgunarmenn í hættu við að reyna að bjarga konunni. Var lítið annað hægt að gera en að fylgjast með henni fljóta burt.

Þetta kemur fram í færslu Lögreglunnar á Suðurlandi þar sem fram kemur að aðstæðurnar í Reynisfjöru þegar slysið átti sér stað hafi verið einhverjar þær erfiðustu sem hjálparaðilar lenda í.

Lögregla og björgunarsveitir voru kallaðar í Reynisfjöru síðastliðinn miðvikudag þegar tilkynning barst um að ferðamaður hafði farið í sjóinn. Aðstæður reyndust afar erfiðar til leitar og björgunar, og reyndist lítið hægt að gera þegar á hólminn var komið.

„Mikið brim var á þessum tíma við ströndina og reyndist ekki óhætt að sjósetja báta til björgunar. Ljóst er að þessar aðstæður eru einhverjar þær erfiðustu sem hjálparaðilar lenda í enda gengur þjálfun þeirra út á leit og björgun,“ segir í færslu lögreglunnar.

Voru aðstæður svo erfiðar að ekki þótti stætt að leggja björgunarsveitarmenn í hættu við að reyna að ná til konunnar, sem reyndist vera ungur kínverskur ferðamaður á ferð um landið.

„Þarna þurfti að taka ákvörðun um að aðhafast ekki, vegna þeirrar hættu sem björgunaraðilum var búin, með þeim björgum sem tiltækar voru að öðru leiti en því að fylgjast með manneskjunni þar sem hún sást fyrst um sinn frá landinu á floti í sjónum. Engum dylst að slíkt reynir á alla sem að málinu komu.“

Liðsmenn Landhelgisgæslunnar fundu konuna í sjónum og var hún hífð um borð. Var hún flutt á heilsugæsluna í Vík þar sem hún var úrskurðuð látin.

Frá því að slysið varð hefur verið tekist á um hver beri ábyrgð á að nauðsynlegur öryggisbúnaður verði settur upp. Björgunarsveitarmenn hafa sagt að það strandi á landeigendum. Einn af landeigendum í Reynisfjöru hefur hins vegar vísað því á bug.

Alls hafa ellefu alvarleg útköll borist vegna Reynisfjöru síðustu sjö árin, þar af hafa fjórir látist.


Tengdar fréttir

Vísar um­mælum björgunar­sveitar­manns al­farið á bug

Landeigandi í Reynisfjöru, þar sem banaslys varð í gær, vísar því alfarið á bug að landeigendur standi í vegi fyrir öryggisúrbótum á svæðinu. Þeir hafi þvert á móti tekið þátt í að setja upp gönguleiðir og lagt til sérstakar merkingar í öryggisátt. 

Ótækt að úrbætur strandi á landeigendum

Björgunarsveitarmaður segir ótækt að ekki hafi enn verið hægt að koma upp nauðsynlegum öryggisbúnaði í Reynisfjöru, þar sem banaslys varð í gær. Fjármagn hafi löngu verið tryggt en málið strandi á landeigendum.

Sá fjögur fara í sjóinn og konu reka langt frá landi

Björgunarsveitir leita enn ungrar konu sem lenti í sjónum við Reynisfjöru í dag. Leiðsögumaður sem var í fjörunni þegar slysið varð segir aðstæður hafa verið slæmar og mikill öldugangur. Þyrla Landhelgisgæslunnar er á svæðinu auk þess sem nærstaddur togari verður nýttur til að lýsa upp svæðið þegar fer að rökkva.

Konan fannst látin í sjónum

Konan sem leitað var að í sjónum við Reynisfjöru fannst látin á sjötta tímanum í dag. Hún var kínverskur ferðamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×